
Íbúar í Vestmannaeyjum virðast bregðast við ástandinu sem þar hefur skapast vegna COVID-19 með æðruleysi og von um að allt fari á besta veg. Þar hafa meira en hundrað íbúa greinst með kórónaveiruna og á þriðja hundrað er í sóttkví.

Björk Elíasdóttir gefur pabba sínum, Elíasi Gunnlaugssyni, fingurkoss gegnum gluggann. Hann er fyrrverandi sjómaður og elsti íbúi dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hraunbúða. Björk lítur daglega til pabba síns en þarf að láta duga að veifa og senda honum fingurkossa, þar sem hann heyrir orðið lítið

Erlendur Gunnarsson – Elli Gunna – bíður eftir tíma hjá lækni á heilsugæslunni.

Daníel Edward og Jóhanna Björg með dóttur sína Kristínu Rós. Daníel hefur enga vinnu þessa dagana, þar sem hann vinnur á bar sem búið er að loka eins og öðru. Þau segjast engar áhyggjur hafa, enda séu þau ung, hraust og heimakær.

Hjörtur Kristjánsson, sóttvarnalæknir í Suðurumdæmi, hefur verið í Eyjum að skima fyrir veirunni.

Íslensk Erfðagreining skimaði fyrir veirunni á bílastæði íþróttahússins

Svavar Steingrímsson er 84 ára og hefur labbað 24 sinnum upp á Heimaklett á þessu ári. Hann segir það taka einn til tvo tíma, það fari eftir því hversu margar kindur hann hitti á leiðinni til að klappa. Hér horfir hann á eftir dóttur sinni ganga á klettinn, en það eru hennar kindur sem ganga þar frjálsar.

Sigurður Bragason horfir út á haf. Hann er greindur með COVID-19 og er í einangrun niðri á bryggju. Þegar hann var að stimpla sig inn í einangrun var hann í vandræðum með lyklahús utan á húsinu og komst ekki inn. Vinur hans kom til bjargar en ekki vildi betur til en svo að hann smitaðist af Sigurði og er líka kominn í einangrun. Eiginkona hans og tvær dætur eru í sóttkví en finna ekki til einkenna.

Við höfnina

Ísalind Eyþórsdóttir 4 ára mætir á heilsugæsluna með mömmu sinni
Andreu Kjartansdóttur, Guðný Bogadóttir yfirhjúkrunarfræðingur á heilsugæslu tekur á móti þeim.

Fólk fer lítið útúr húsi nema til að fara í búðina eða að fá sér göngutúr.

Héðinn Karl Magnússon sjómaður er búinn að vera í sóttkví í tólf daga. Hann tekur rúntinn niður á bryggju á hverjum degi og hann býr svo vel að eiga „man cave“ niðri á bryggju ásamt vinum sínum, þar sem hann hefur haldið til í sóttkvínni. Hann hafði því dundað sér við að parketleggja og haft í nógu að snúast, en en var þó farinn að hlakka verulega til að losna úr sóttkvínni.

Gyða Arnórsdóttir hjúkrunarfræðingur er í sóttkví með syni sínum.

Davíð Egilsson yfirlæknir a heilsugæslu og Margrét Þorsteinsdóttir hjjúkrunarfræðingur skoða niðurstöður sýna í tölvunni.

Ekkert hefur breyst hjá þessari litlu fiskvinnslu en þar eru bara 4 starfsmenn í vinnslunni. Stærri fiskvinnslur í Eyjum hafa skipt starfsfólki sínu upp í smærri hópa sem eiga engin samskipti sín á milli.

Börn í Eyjum setja bangsa útí glugga.

Sendill frá póstinum fer með vörur í apótekið meðan kona verslar gegnum glugga, en apótekið hefur aðeins opið fyrir afgreiðslu gegnum glugga.

Sett var af stað söfnun fyrir spjaldtölvum handa fólkinu á dvalarheimilinu þegar lokað var fyrir heimsóknir þangað. Þannig geta þau Helga og Arnór spjallað við mömmu hans, Gyðu, sem er 98 ára. Hér sýna þau henni mynd frá brúðkaupi í fjölskyldunni sem átti sér stað útí Finnlandi daginn áður.

María Pétursdóttir er hársnyrtir og rekur hárgreiðslustofu í Eyjum. Dóttir hennar, Sara Dís Davíðsdóttir, er snyrtifræðingur og býr í Reykjavík, en kom heim til Eyja þegar vinnustað hennar var lokað vegna samkomubannsins.

Lögreglumanninum Hlyni þykir mikilvægt að lögreglan sé sýnileg á erfiðum tímum. Hann röltir því um bæinn og fylgist með því að allt gangi vel. Hann segir alla samstiga um að fylgja tveggja metra reglunni og verður ekki var við að nokkur brjóti samkomubann.

Telma stendur vaktina í Bónus að afgreiða fólk um nauðsynjahluti. Hún upplifir öryggi við að hafa andlitsgrímu og þykir ekki erfitt að hafa hana á sér allan daginn.

Baltasar og Aþena gera snjókarl með Einari pabba sínum. Mamma þeirra fylgist með út um gluggann.

Daði Magnússon er einn heima hjá sér í sóttkví. Hann starfar sem tölvunarfræðingur og getur því unnið að heiman en finnst heldur leiðinlegt að geta ekki hitt neinn.

Til stendur að halda vinsælt hlaup, Puffin Run, þann 9. maí. Eyjamenn eru harðákveðnir í að halda í þá dagsetningu, enda sé hægur leikur að hlaupa með tveggja metra millibili. Það er hins vegar fyrirséð að færri munu taka þátt en venjulega, enda koma engir útlendingar í þetta sinn. Hér æfir hótelstjórinn Magnús Bragason sig fyrir hlaupið.























